Ég er forseti bæjarstjórnar Garðabæjar og formaður íþrótta- og tómstundaráðs. Ég hef verið bæjarfulltrúi síðastliðin 4 ár en var áður varabæjarfulltrúi. Á yfirstandandi kjörtímabili hef ég einnig setið í bæjarráði, verið stjórnarformaður Strætó bs. og í samstarfsnefnd skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins.
Ég hef setið í ýmsum vinnu- og starfshópum á vegum Garðabæjar. Ber þar hæst að ég leiddi vinnu starfshóps vegna undirbúnings á byggingu fjölnota íþróttahúss í Garðabæ. Ég sit í verkefnahópi vegna uppbyggingar og reksturs skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins ásamt því að vera formaður stýrihóps sem vinnur að innleiðingu verkefnisins barnvænt sveitarfélag í Garðabæ.
Ég hef í störfum mínum fyrir bæinn lagt áherslu á fjölskylduvænt samfélag með framúrskarandi og fjölbreyttu íþrótta-, tómstunda-, og forvarnarstarfi fyrir alla aldurshópa. Ég hef brennandi áhuga og metnað til að vinna að því að Garðabær haldi áfram að vera eftirsóknarvert bæjarfélag.
Ég er 43 ára, gift Jóni Sigurðssyni og saman eigum við tvo stráka. Sigurð, fæddan árið 2002, tölvunarfræðinema í Háskólanum í Reykjavík og Styrmi, fæddan árið 2006, nemanda í Garðaskóla. Ég er alin upp á Seltjarnarnesi en foreldrar mínir eru þau Vilhjálmur Fenger, sem lést árið 2008, og Kristín V. Fenger. Ég á einn yngri bróður, Ara Fenger.
Ég flutti í Garðabæinn árið 2012 en hafði áður kynnst bæjarfélaginu vel þar sem ég æfði og keppti í mörg ár í handbolta með Stjörnunni.
Ég útskrifaðist með stúdentspróf frá Verzlunarskóla Íslands árið 1999 eftir að hafa farið í eitt ár sem skiptinemi til Bandaríkjanna. Eftir stúdentspróf lá leiðin í lagadeild Háskóla Íslands þar sem ég útskrifaðist sem lögfræðingur (Cand Jur.) árið 2005.
Eftir útskrift úr lagadeildinni réð ég mig til starfa sem lögfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu og starfaði þar til ársins 2007. Ég starfaði sem sérfræðingur í velferðarráðuneytinu á árunum 2010-2013 en hef síðan verið sjálfstætt starfandi. Ég er einn af eigendum heildsölunnar 1912 ehf. og hef setið þar í stjórn frá árinu 2007.
Eftir að ég eignaðist fjölskyldu jókst áhugi minn á nærsamfélaginu og ég byrjaði á að setjast í stjórnir foreldrafélaga bæði í leik- og grunnskóla ásamt því að taka að mér stjórnarsetu í íþróttafélögum. Í framhaldinu jókst áhugi minn jafnt og þétt á sveitarstjórnarmálum og hef ég tekið virkan þátt á þeim vettvangi eftir að ég flutti í Garðabæ.
Ég gekk í kvenfélagið Hringinn árið 2005 en félagið hefur það að markmiði að vinna að líknar- og mannúðarmálum, sérstaklega í þágu barna. Ég hef einnig setið í fulltrúaráði Sólheima frá árinu 2006.
Ég hef frá því ég man eftir mér haft mikinn áhuga á íþróttum og stundaði bæði handbolta og fótbolta öll mín uppvaxtarár. Þegar ég var 14 ára gömul skipti ég úr Gróttu yfir í Stjörnuna og spilaði með þeim stærsta hluta míns handboltaferils. Ég verð ævinlega þakklát fyrir þau vináttubönd sem og þann góða grunn sem íþróttirnar veittu mér bæði hvað varðar heilsu sem og grunngildi lífsins. Ég hef enn í dag mikinn áhuga á almennri heilsueflingu enda finnst mér gaman að hreyfa mig og ég tala nú ekki um ef það er gert í skemmtilegum hópi. Fjölbreytni er hér lykilatriði enda mikilvægt að breyta reglulega til og skora á sjálfan sig að prófa nýja hluti. Ferðalög erlendis með fjölskyldu og vinum eru líka eitt af því skemmtilegasta sem ég geri og þá sérstaklega skíðafrí en þar fléttast saman hreyfing og útivera.