Á fundi bæjarráðs Garðabæjar 28. september síðastliðinn var samþykkt ný akstursáætlun Strætó í Urriðaholti frá og með 1. október 2021. Hin nýja akstursáætlun mun bæta til muna almenningssamgöngur í hverfinu.
Undanfarið ár hefur verið í gangi þróunarverkefni Garðabæjar og Strætó bs. um akstur strætisvagns af minni gerðinni á akstursleið 22, Ásgarður-Urriðaholt-Ásgarður.
Leiðasérfræðingar Strætó, deildarstjóri umhverfis og framkvæmda hjá tækni- og umhverfissviði Garðabæjar og fulltrúi Garðabæjar í stjórn Strætó, mátu þróunarverkefnið nokkrum sinnum á tímabilinu og komu í kjölfarið með tillögu að nýrri útfærslu leiðarinnar. Bæjarráð Garðabæjar hefur nú samþykkt tillöguna og mun hin nýja akstursáætlun taka gildi frá og með 1. október 2021.
Í Urriðaholti hefur mikil uppbygging verið í gangi á síðustu árum en hátt í 2.500 manns búa nú í hverfinu. Áætlað er að vorið 2022 verði íbúar þar orðnir 3.000 talsins og 4.500 þegar hverfið verður fullbyggt.
Mat á framangreindu þróunarverkefni ásamt mikilli uppbyggingu í Urriðaholti leiddi til þess að lagt var til við bæjarráð að auka aksturstíðni Strætó í hverfinu allan daginn og að pöntunarþjónusta sé þar einungis á kvöldin.
Akstursleið Strætó númer 22 er frá skóla- og íþróttasvæðinu við Ásgarð að Urriðaholti, þar sem ekin er hringleið um hverfið að Urriðaholtsskóla og aftur í Ásgarð.
Samkvæmt nýrri akstursáætlun verður tíðni aukin á leið 22 frá því sem verið hefur, sem hér segir:
• Á virkum dögum er ekið á 30 mínútna tíðni frá kl. 7:00 til kl. 20:00. Eftir það er pöntunarþjónusta á 30 mínútna tíðni til kl. 23:30.
• Um helgar er ekið á 30 mínútna tíðni, á laugardögum kl. 8:00-19:00 og á sunnudögum kl. 10:00-19:00. Eftir það er pöntunarþjónusta á 30 mínútna tíðni til kl. 23:30 báða dagana.
Framangreind breyting felur í sér að tíðni vagnanna er aukin og kemur vagninn nú á hálftíma fresti allan daginn og pöntunarþjónusta verður eingöngu á kvöldin. Áfram verður ekið með vagni af minni gerðinni. Jafnframt verða sett upp þrjú ný strætóskýli í Urriðaholti ásamt því að sett verður upp nýtt skýli við Ásgarð og svæðið þar í kring lagfært.
Gert er ráð fyrir að þegar hið nýja fjölnota íþróttahús Garðbæinga í Vetrarmýri verður opnað almenningi í febrúar 2022 verði Strætóleið nr. 22 útvíkkuð enn frekar og muni einnig tengja Urriðaholtið við Vetrarmýrina.
Urriðaholt var fyrsta hverfið á Íslandi til að fá vistvottun skipulags samkvæmt vottunarkerfi ,,BREEAM Communities“ sem er ætlað að tryggja lífsgæði og umhverfisvernd með vistvænu skipulagi byggðarinnar. Þannig hefur við uppbyggingu hverfisins mikil áhersla verið lögð á að byggðin sé umhverfisvæn og í góðum tengslum við náttúruna í kring.
Strætó bs. hyggst bjóða út kaup á nýjum, rafknúnum strætisvögnum nú í október 2021, bæði vögnum af hefðbundinni stærð og vögnum af minni gerðinni með um 25 sæti og palli fyrir hreyfihamlaða. Slíkir minni vagnar henta vel fyrir íbúðarhverfi af þeirri stærð sem Urriðaholt og Álftanes eru nú en um 2.500 manns búa í hvoru þessara hverfa.
Fulltrúi Garðabæjar í stjórn Strætó hefur lagt á það áherslu að rafknúnir strætisvagnar af minni gerðinni verði komnir á götur þessara tveggja hverfa á vori komanda. Það mun bæði stuðla að bættum loftgæðum og minni hljóðmengun frá vögnum Strætó á götum Garðabæjar.
Að lokum er rétt að nefna að samhliða vinnu við bættar almenningssamgöngur í Urriðaholti er um þessar mundir verið að undirbúa umbætur á öðrum umferðarleiðum inn og út úr hverfinu m.a. með stígagerð í gegnum Svínahraun að Vífilsstöðum og tengingum við Flóttamannaveg þegar hann hefur verið lagfærður.
Björg Fenger, forseti bæjarstjórnar og fyrrverandi stjórnarformaður Strætó bs.
Gunnar Valur Gíslason, bæjarfulltrúi og núverandi fulltrúi Garðabæjar í stjórn Strætó bs.